Ábyrgðarskilmálar, gallar og takmörkun ábyrgðar:

    1. Virki hið selda ekki sem skildi skal kaupandi tilkynna Landvélum ehf. (hér eftir nefndur seljandi) væntan galla þegar í stað. Jafnframt skal kaupandi gera nauðsynlegar varúðarrráðstafanir er lágmarka frekara tjón.
    2. Ábyrgðarskilmálar seljanda eru 12 mánuðir nema ef íslensk lög (lög um lausafjárkaup nr. 50/2000, neytendakaup, nr. 48/2003 og þjónustukaup, nr. 42/2000) kveða á um annað, eða um annað hafi verið sérstaklega samið. Notaður búnaður sem seldur er sem slíkur, nýtur ekki ábyrgðar nema um það sé samið sérstaklega.
    3. Reikningur fyrir hið selda, vöru og eða þjónustu, gildir sem ábyrgðarskírteini og hefst ábyrgðartími, þegar hið selda hefur verið innt af hendi, eða við dagsetningu reiknings, hvort sem fyrr er.
    4. Framleiðandi hins selda og seljandi skuldbinda sig til að lagfæra alla framleiðslugalla sem koma í ljós innan umsamins ábyrgðartíma án endurgjalds, nema um annað sé samið eða kveðið á um í lögum um lausafjárkaup. Þessar skuldbindingar falla niður ef:
      • a) Kaupandi hefur sjálfur lagfært hið selda án undangengins skriflegs samþykkis framleiðanda.
      • b) Gallinn stafar af rangri meðferð og eða notkun kaupanda á hinu selda sem ekki telst vera í samræmi við venjubundna notkun og/eða lýsingarkröfur framleiðanda/seljanda, þar með talið ef rekja má væntan galla til búnaðar eða íhluta sem hefur verið tengdur við hið selda sem telst ekki viðurkenndur.
      • c) Viðgerðir og viðhald hins selda hefur verið innt af hendi af öðrum en framleiðanda eða fulltrúa hans. Þetta ákvæði gildir ekki ef framleiðandi eða fulltrúi hans hefur heimilað viðgerðina.
      • d) Gallinn stafar af ástæðum, þar með talið óhreinindi, sem varða kaupanda eða þriðja aðila sem kaupandi ber ábyrgð á.
      • e) Slöngusmíði og pressun þegar efni til samsetningar, slanga og annað lagnaefni, kemur frá þriðja aðila og eða er notað efni.
    5. Teljist hið selda vera íhlutur sem er hluti af stærra kerfi eða heild (hér eftir nefnt kerfi) takmarkast ábyrgð seljanda við eftirfarandi:
      • Hið selda er íhlutur í kerfi sem er hannað og smíðað af kaupanda eða þriðja aðila. Ábyrgð seljanda nær eingöngu til hins selda íhlutar og að virkni hans sé eins og vænta mátti. Rangar stillingar í kerfi, uppsetning eða rangt val á íhlut er ekki á ábyrgð seljanda.
      • Hið selda er íhlutur í kerfi sem er jafnframt hannað af seljanda en smíðað af kaupanda eða þriðja aðila. Ábyrgð seljanda nær eingöngu til hins selda íhlutar og virkni þeirra hönnunar sem hefur verið seld kaupanda. Uppsetning, stilling og smíði er ekki á ábyrgð seljanda.
      • Hið selda er íhlutur í kerfi sem er hannað og smíðað af seljanda. Ábyrgð seljanda nær til allra íhluta og virkni kerfis sem heildar.
      • Ef seljandi hefur verið ráðinn til að stilla og yfirfara kerfi sem er smíðað og eða hannað af kaupanda eða þriðja aðila, þá takmarkast ábyrgð seljanda við þær upplýsingar sem liggja fyrir. Galli í uppsetningu, hönnun eða smíði sem ætla má að flokkist sem leyndur, þar með talið rangt efnisval, óhreinindi og rangar tengingar, er ekki á ábyrgð seljanda þrátt fyrir að seljandi hafi farið yfir kerfið í heild sinni.
    6. Ábyrgð á vöru og þjónustu gildir aðeins á Íslandi, nema um annað hafi verið samið.
    7. Framleiðandi hins selda, seljandi eða fulltrúi hans, mun eins fljótt og við verður komið bæta úr þeim göllum, sem greindir hafa verið hér að framan. Úrbætur geta verið í því formi að lagfæra gallann eða láta í té nýjan hlut ef ekki tekst að laga gallann.
    8. Framleiðandi eða fulltrúi hans ber ekki ábyrgð á tjóni sem kaupandi verður fyrir vegna þess tíma sem viðgerðin eða útvegun nýs hlutar tekur t.a.m. vegna missis hagnaðar.
    9. Galli sem seljandi eða framleiðandi ber ábyrgð á og veldur því að hið selda verði ekki tekið í notkun að hluta eða öllu leyti veitir kaupanda rétt á tiltölulegum afslætti eða heimilar honum riftun á samningnum ef vanefndirnar eru verulegar. Kröfur í þessum efnum skal kaupandi setja fram innan árs frá því að uppvíst varð um gallann. Réttur kaupanda skv. þessari grein er einnig háður því að hann hafi tilkynnt seljanda f.h. framleiðanda skriflega um gallann og seljandi/framleiðandi ekki bætt úr gallanum innan þess tíma er eðlilegt má telja frá þeim tíma.
    10. Bilun, sem seljandi er ekki skuldbundinn til að leysa úr og fram koma í grein 4 og 5 getur seljandi hins selda leyst úr eftir nánara samkomulagi og eða gildandi verðtöxtum fyrir veitta þjónustu.
    11. Skaðabótaábyrgð aðila þessa samnings er háð því að þeir hafi sýnt af sér verulegt aðgæsluleysi eða gróf mistök. Skaðabætur skulu undir engum kringumstæðum vera meiri en sem nemur endurgreiðslu þess kaupverðs sem kaupandinn greiddi. Skaðabótaábyrgð samningsaðila nær ekki til afleidds tjóns s.s. rekstrartaps, glataðs ágóða eða sparnaðar, tapaðra gagna eða annars óbeins tjóns eða krafna þriðju aðila á hendur samningsaðilum.
    12. Seljandi er ekki skaðabótaskyldur gagnvart hindrun sem er þess eðlis að ekki sé hægt með sanngirni að ætlast til þess að seljandi hafi haft hana í huga við samningsgerð. Nær þetta ákvæði til óviðráðanlegra atvika (Force Majeure) svo sem vinnudeilna, styrjalda, náttúruhamfara, aðgerða stjórnvalda á sviði gjaldeyris- og viðskiptamála, viðskiptabanna, hafnbanna, og óviðráðanlegum atvikum í samskiptum við undirverktaka.
    13. Skaðabótakröfur skulu settar fram innan eins árs frá tjónsatburði. Að öðrum kosti falla þær niður.
    14. Þar sem skilmálum þessum sleppir gilda lög um lausafjárkaup nr. 50/2000, lög um neytendakaup nr. 48/2003 eða eftir atvikum lög um þjónustukaup nr. 42/2000
    15. Komi upp ágreiningur milli seljanda og kaupanda og náist ekki samkomulag skal reka málið fyrir Héraðsdómi Reykjaness.