IMG_5573Landvélar eru öflugur þjónustuaðili við íslenskan iðnað og athafnalíf.  Þjónustan er fjölbreytt en á það sameiginlegt að snúast um iðnaðarvörur.  Meðal helstu þjónustuþátta eru slöngu- og rörasmíði, viðgerðir og tækniþjónusta á vökva- og loftbúnaði, nýsmíði og hönnun á vökvadælustöðvum og alhliða tækniþjónusta fyrir drifbúnað, legur, smurkerfi, suðuvörur, krana o.fl..

Markmið okkar er veita viðskiptavinum faglega og örugga þjónustu sem styður vel við það mikla úrval af iðnaðarvörum sem fyrirtækið selur.  Okkar öflugasta bakland er verkstæði Landvéla sem sér um viðhald og ábyrgðaviðgerðir fyrir okkar eigin vörumerki auk almennra viðgerðaþjónustu á ýmsum vökvabúnaði.

Landvélar bjóða upp á neyðarþjónustu allan sólarhringinn og alltaf er hægt að ná í menn á vakt með einu símtali.

Verið velkomin í viðskipti.

Verslun og þjónusta

verslun-utan

Verslun Landvéla er vel staðsett og með góðu aðgengi.  Fjöldi sölumanna er á annan tug og atið oft mikið enda verkefnin fjölbreytt og oft tæknilega krefjandi, allt frá því að afhenda eina hosuklemmu eða O hring í það að vera ráðgjöf og sala á flóknum lausnum eða íhlutum. Vöruúrvalið spannar mjög vítt svið af rekstrar- og tæknivöru þar sem verðmæti birgða hleypur á hundruðum milljóna, fjöldi vörunúmera skiptir tugum þúsunda og fjöldi birgja hundruðum.  Þá eru sérpantanir á ýmsum vörum daglegt brauð og því má með sanni segja að enginn dagur sé eins á vinnustað eins og hjá Landvélum.

Til stuðnings er úrval tæknimanna og þægilegt aðgengi inn á verkstæði félagsins, þar sem hægt er að renna eða laga til einstaka nippla, rör o.fl.

Við bjóðum upp á útkeyrslu á allar helstu afgreiðslustöðvar og vinnum náið með helstu flutningsaðilum.

 

Sérhæfð verkstæðisþjónusta

Sérhæfð verkstæðisþjónusta

Á Smiðjuvegi 28 (beint á móti höfuðstöðum Landvéla) er þjónustuverkstæði okkar fyrir viðgerðir og viðhald á flestum gerðum af vökvamótorum og vökvadælum, vökvaaflsstöðvum, spilkerfum og vindumótorum.

Fyrr á árum ráku Landvélar fullkomið renniverkstæði þar sem smíðaður var ýmis fittings, lokar, blokkir o.fl., samhliða var rekið öflugt smíðaverkstæði fyrir loft- og vökvatjakka.  Við eigendaskipti á Landvélum árið 2005 var þessi starfsemi flutt yfir til Vélaverkstæðis Hjalta Einarssonar ehf. (VHE) í Hafnarfirði. Er gott samstarf milli fyrirtækjanna með sérsmíði og sölu á tjökkum auk samvinnu um ýmsa smíða- og vélsmiðjuvinnu.

Auk áðurnefndrar viðgerðaþjónustu fyrir vökvamótora og vökvadælur sér verkstæði Landvéla um smíði og samsetningu á flestum af þeim háþrýstu vökvaaflsstöðvum, lokum og stýringum sem hannaðar eru af tæknideild Landvéla.  Jafnframt eru almennra viðgerðir og ábyrgðaviðgerðir á söluvörum Landvéla í umsjón verkstæðisins.  Þá sérsmíðum við, beygjum og flerum rör og lagnir í ýmis verkefni, tæki og búnað.

Að bak við þessa þjónustu eru reynslumiklir starfsmenn í glussa og háþrýstikerfum sem njóta stuðnings tækniþjónustu Landvéla.  Verkstæðið er vel tækjum búið, þar má meðal annars finna álagsbekk til að prufukeyra mótora og dælur undir þrýstingi. Þá er góð aðstaða til að sinna viðhaldi vökvabúnaðar í bílkrönum og öðrum stærri tækjum.

 

Þekking í forgrunniTækniþjónusta

Kjarninn í tækniþjónustu Landvéla er þjónusta og ráðgjöf varðandi ýmsan flæðidrifinn vökva- eða loftbúnað, almennan drifbúnað, legur, þéttingar og ýmis rafsuðuverkfæri, vír og efni.  Hjá fyrirtækinu starfa sérfræðingar á þessum sviðum sem eru til halds og traust, beint við okkar viðskiptavini en ekki síður sem daglegur stuðningur og bakland fyrir aðra sölumenn Landvéla og verkstæði.

Mikið af þeim fyrirspurnum sem berast Landvélum eru tæknilega krefjandi og oft er verið að leita lausna á ákveðnum og mjög sérhæfðum verkefnum.  Sum verkefnin kalla á ráðgjöf okkar við val á réttum íhlutum á meðan önnur verkefni eru meira byggð upp sem heildarlausn, þ.e. við hönnum lausnir að hluta eða í heild og sjáum þá jafnframt um smíði og samsetningu.  Allt er þetta svo unnið í góðu samstarfi við leiðandi framleiðendur eins og Parker, Bosch Rexroth, SKF og Kemppi svo nokkrir séu nefndir.

Meðal helstu verkefna sem tækni- og þjónustusvið Landvéla sinna eru:

  • Hönnun og smíði háþrýstra vökvakerfa, vökvaaflsstöðva og stýringa.
  • Sala og þjónusta á loftbúnaði, tjökkum og stýringum.
  • Ráðgjöf á drifbúnaði og smurkerfum, legum og þéttingum.
  • Ráðgjöf við rafsuðu og val á vír og sérefnum.
  • Ráðgjöf og val á dælum í öll verkefni, loft, vatn, efnavara og olíur.
  • Sala og þjónusta á brú- og bílkrönum og öðrum iðnaðarkrönum.

 

Slöngusmíði er okkar fagslöngusmíði 1

Ein af grunnstoðum í þjónustu Landvéla er smíði og pressun á slöngum og lagnaefni, en fyrirtækið hefur sérhæft sig í slöngusmíði allt frá stofnun.  Fyrirtækið er vel tækjum búið til að smíða, skafa og pressa slöngur eftir óskum hvers og eins. Við erum í samvinnu við leiðandi birgja og fylgjum þeirri þróun sem á sér stað á þessum vettvangi.

Flestir sölu-, tækni- og afgreiðslumenn okkar hafa þjálfun og getu til að smíða og pressa slöngur hratt og örugglega og oftast er hægt að leysa þessi verkefni á meðan viðskiptavinurinn bíður.
Landvélar hafa ávallt átt gott samstarf við þjónustuaðila um allt land sem taka að sér að pressa og smíða allar algengustu slöngur með slöngum og lagnaefni frá Landvélum.

Fyrir ýmis stærri verkefni eins og jarðgangagerð og jarðborun höfum við í samvinnu við viðskiptavini okkar útbúið færanlegar gámaeiningar með slöngupressu, slöngum og lagnaefni, sem fullbúið slönguverkstæði á verkstað.

Alltaf á vakt
Neyðarþjónusta

Alltaf á vakt – neyðarþjónusta allan sólarhringinn, alla daga ársins.

Margir viðskiptavina okkar eru að störfum fyrir utan hinn hefðbundna vinnutíma, enda oft mikið í húfi vegna ófyrirséðs viðhalds eða bilunar.  Til að tryggja aðgang að íhlutum og varahlutum bjóða Landvélar upp á 24 tíma neyðarþjónustu alla daga ársins.  Ávallt er einn starfsmaður á vakt sem getur kallað aðra sér til aðstoðar ef með þarf.

Hvert útkall utan hefðbundins verslunartíma er gjaldfært skv. gildandi verðskrá hverju sinni.  Útköll á hátíðardögum og milli kl. 23.00 og 07.00 bera tvöfalt gjald.

Símanúmer neyðarþjónustu Landvéla er 892 2424

Straumrás

Hús 1Dótturfyrirtæki Landvéla á Akureyri er Straumrás hf.  Rótgróið fyrirtæki sem þekkir sinn heimamarkað vel og nýtur nálægðar við öfluga útgerð og iðnað norðan heiða.

Hjá fyrirtækinu starfa fimm hressir og kraftmiklir strákar með góða og haldbæra reynslu. Verslunarstjóri og æðsti prestur er Guðni Hermannson.

Kjarnastarfsemi Straumrásar svipar til Landvéla. Vöruflokkarnir endurspegla vöruframboð Landvéla en gott betur þar sem fyrirtækið höndlar með ýmsar vörur í endursölu frá öðrum innlendum heildsölum. Má þar nefna raf- og vélavörur frá Fálkanum en einnig ýmis verkfæri, öryggis- og efnavörur o.fl. o.fl.. Einnig er gott úrval af bílavörum fyrir trukka og tæki, reimum o.s.frv.. Nálægðin við bændur og þjónusta við ferðamenn með tjaldvagna og fellihýsi litar svo starfsemina á sumrin.

Í raun má segja að það sé eitt ævintýri að heimsækja verslun Straumrásar sem ber sterkan keim að því að vera sá aðili sem reddar flest öllu er snýr að vélbúnaði og tækjum og gott betur. Stemingin er skemmtileg og strákarnir allir af  vilja gerðir að þjóna sínum viðskiptavinum.

Hjá Straumrás á að vera hægt að fá smíðaðar flestar ef ekki allar slöngur sem Landvélar selja.

Nánar um Straumrás hér